fbpx

Netverslun er komin til að vera║Fréttablaðið

Íslensk netverslun eftir Covid 19. Viðtal við Górillu Vöruhús

„Netverslun eykst um 111%, 8 af 10 Íslendingum hafa nú prófað að versla á netinu og ekkert lát er á pöntunum,“ Fréttablaðið birti á dögunum skemmtilega samantekt á áhrifum Covid-19 á íslenska netverslun.

Viðtalið sem er endurbirt hér ber titilinn „Net­verslun komin til að vera“ og er unnið af Ara Brynjólfssyni. Viðmælendur eru Egill Halldórsson hjá Górillu Vöruhúsi, Einar Thor hjá auglýsingastofunni KoiKoi og Brynhildur Pétursdóttir hjá Neytendasamtökunum.

Net­verslun er komin til að vera, ég tel að hún muni mögu­lega minnka lítil­lega eða standa í stað í sumar en svo halda á­fram að aukast af fullum krafti,“ segir Einar Thor, staf­rænn leið­togi hjá Koi­koi, fyrir­tæki sem sér­hæfir sig í vef­verslunum og staf­rænni markaðs­setningu.

Egill Fannar Halldórsson, annar tveggja stofnenda Gorilla vöruhúss sem af­greiðir pantanir fyrir tugi íslenskra verslana, segir að sprengingin sem varð í verslun á netinu sé enn í gangi og ekkert lát sé á pöntunum. „Þetta er búið að vera bomba. Hvort þessi traffík muni haldast hjá verslunum veltur á því hversu vel verslunin hefur staðið sig í því að veita góða þjónustu.

Ef það var auð­velt að skoða og panta á vefnum og ef pöntunin komst hratt og örugg­lega til skila eru við­skipta­vinir á­nægðir og lík­legir til þess að versla aftur,“ segir Egill. „En ef við­mótið var ekki nægi­lega gott eða ef pöntunin er marga daga á leiðinni, þá er hætt við því að fólk versli ekki aftur við við­komandi verslun og sé ó­lík­legra til þess að halda á­fram að versla á netinu.“

Sam­kvæmt tölum Hag­stofunnar versluðu Ís­lendingar fyrir 1,7 milljarða króna á netinu í mars, sem er 111 prósentum meiri velta en í sama mánuði í fyrra. Alls var sala á netinu um sex prósent rekstrar­tekna ís­lenskra fyrir­tækja.

Hafa nú átta af hverjum tíu lands­mönnum prófað að versla á netinu. Af þeim Ís­lendingum sem versluðu á netinu í fyrra lentu 76,8 prósent í ein­hvers konar vand­ræðum sem tengdust því. „Ís­land er í efsta sæti yfir hlut­fall þeirra sem hafa lent í ein­hverjum vand­ræðum við að kaupa á netinu, annað­hvort með síðuna, heim­sendingu eða skila­rétt. Upp­lifunin hefur ekki verið nægjan­lega góð sem er ekki hvetjandi fyrir neyt­endur. Nú höfðu fyrir­tækin engan annan val­kost en að setja púður í að laga þessi at­riði og ef­laust mikið verk enn ó­unnið,“ segir Einar Thor.

Kostnaður fyrir­tækja við að setja upp vef­verslun getur verið afar mis­jafn eftir þörfum, allt frá 750 þúsundum upp í 25 milljónir króna.
Einar Thor býst við miklum breytingum á næstunni.

„Það er mikil gerjun að eiga sér stað meðal þeirra hundraða net­verslana sem starfa á Ís­landi. Það er enn þá dýrt að senda með póstinum og nýir val­kostir á borð við Dropp komnir fram í sviðs­ljósið, en það kæmi ekki á ó­vart þó að ein­hverjar net­verslanir tækju sig saman og starf­ræktu sam­eigin­legan dreifingar­aðila varðandi póst­sendingar.“

Bryn­hildur Péturs­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Neyt­enda­sam­takanna, segir rétt neyt­enda rýmri þegar verslað er á netinu. „Þegar verslað er á netinu er réttur neytandans betur tryggður að því leyti að hann á yfir­leitt rétt á að skila vöru og fá endur­greiðslu. Neytandi hefur 14 daga til að til­kynna seljanda vilji hann skila vörunni. Þó eru ein­hverjar tak­markanir og undan­tekningar, kaup á mat­vöru falla til dæmis ekki þarna undir,“ segir Bryn­hildur.


 

Sjá viðtalið í heild á Fréttablaðið.is.