Skip to content

Leiðbeiningar: Vöruskil og skipti

Gorilla Voruhus: voruskil

Vöruskil og vöruskipti eru órjúfanlegur fylgifiskur verslunar. Górilla Vöruhús annast móttöku á skilavörum og sér um skipti fyrir sína viðskiptavini.

Þessi grein er til upplýsingar fyrir viðskiptavini Górillu um hvernig skil og skipti geta farið fram. Vonandi náum við að svara flestum spurningum hér að neðan en annars ekki hika við að senda okkur línu ❤️

Vöruskil:
Górilla Vöruhús tekur á móti skilavörum fyrir hönd viðskiptavinar síns og upplýsir forsvarsmann verslunar um móttökuna. Vöruhúsið færir skilavörur aftur í birgðastöðu eða fargar þeim, eftir samkomulagi eða hvort á við hverju sinni.

Skipti á vörum:
Vöruskipti eru nánast óþekkt fyrir marga af okkar viðskiptavinum en mjög algeng fyrir aðra. Til dæmis er hlutfall vöruskipta oft um 20-30% af pöntunum hjá verslunum sem selja fatnað þar sem stærðir og persónulegur smekkur hefur áhrif.

Górilla Vöruhús - Afgreiðsla

Einfaldast er að hreinlega leyfa ekki vöruskipti – heldur hvetja viðskiptavini sem vilja skipta vöru að einfaldlega gera nýja pöntun fyrir þær vörur sem þeir vilja skipta í og skila því sem ekki hentar. Þetta er það módel sem flestar af stærstu netverslunum heims nota.

En hér er leið sem við höfum farið til þess að geta annast vöruskipti, ef verslanir vilja bjóða upp á þann möguleika;

Ákveðin skilyrði eru sett svo hægt sé að leysa þessi verkefni á áreiðanlegan hátt:

  • Allar vörur eru strikamerktar.
  • Viðskiptavinur/verslun skilur að ekki er í boði að senda VV í vöruhúsið fyrr en hann hefur fengið tilkynningu í tölvupósti um að pöntun sé tilbúin til afhendingar. Við græjum ekki skipti á staðnum.
  • Við mælum með því að verslanir setji upp upplýsingasíðu á vef sínum sem útskýrir hvernig skil & skipti fara fram hjá viðkomandi fyrirtæki. Þetta einfaldar verslunum samskipti við viðskiptavini og það er gott að viðskiptavinir geti kynnt sér þessi mál sjálfir.

Dæmi til útskýringar að verkferlum fyrir vöruskipti
→ Þetta er algengasta leiðin sem viðskiptavinir okkar nota í dag:

  1. Viðskiptavinur pantar buxur í stærð Small en áttar sig á að hann þarf stærð Medium.
  2. Viðskiptavinur hefur samband við verslun og biður um að skipta í nýja stærð.
  3. Verslun útskýrir sína skilmála um vöruskil (til dæmis að vörur þurfa að vera ónotaðar, í upprunalegum umbúðum og svo framvegis) – ef allt er í góðu er haldið áfram með skipti.
  4. Verslun stofnar nýja pöntun í vöruhúsakerfi Górillu fyrir nýrri vöru. Pöntun er stofnuð á nafni viðskiptavinar, með nýrri vöru (buxur í Medium) og velur að ‘Sækja pöntun í Vöruhús’.
  5. Næst útskýrir verslun fyrir sínum viðskiptavini að hann fái tilkynningu í tölvupósti frá vöruhúsinu þegar ný pöntun er tilbúin til afhendingar og þá geti hann mætt í vöruhúsið til þess að skila og sækja nýju vöruna sína.
  6. Górilla Vöruhús afgreiðir nýja pöntun. Þegar tilkynning hefur borist um að pöntun sé tilbúin til afhendingar þá getur viðskiptavinur komið í vöruhúsið til þess að skila upprunalegu vörunni sinni og í leiðinni sótt nýja pöntun sem inniheldur buxur í réttri stærð 🥳
  7. Að lokum sendir vöruhúsið tilkynningu til verslunar og staðfestir að viðskiptavinur (Jón Jónsson) hafi skilað vöru (buxum í Small) og að varan hafi verið færð aftur í birgðastöðu.

Ath.

A. Einnig er hægt að gera þetta án þess að VV komi í vöruhúsið, til dæmis fyrir aðila á landsbyggðinni. Þá þurfa viðskiptavinir að senda skilavöru í vöruhúsið og vöruhúsið sendir nýja vöru til viðskiptavinar. Þetta er einnig einfalt en krefst þess að greitt sé fyrir sendingu.

B. Við mælum með því að verslanir setji upp upplýsingarsíðu/skilasíður á vef sínum sem útskýra hvernig skil & skipti fara fram hjá viðkomandi verslun. Þessir ferlar geta verið mismunandi eftir vörum og verkferlum hvers fyrirtækis en hér eru dæmi um skilasíður hjá nokkrum handahófskenndum verslunum af mismunandi stærð og gerð:

Linkar á upplýsingasíður:

Define the Line: https://www.definethelinesport.com/pages/sending-og-skil

Gina Tricot: https://ginatricot.is/pages/algengar-spurningar

Boozt: https://www.boozt.com/is/is/customer-service/return-refund/hvernig-skila-eg

Wagtail: https://wagtail.is/policies/refund-polic

Að lokum …

Vonandi ert þú nær því að skilja hvernig þú vilt hátta skilum og skiptum hjá þínu fyrirtæki  🥳 

Ef þú hefur einhverjar spurningar, ekki hika við að senda okkur skilaboð á pantanir@gorillavoruhus.is!